02.04.2006
Fálkarnir frá Vinnipeg eru nú flognir af landi brott eftir vikudvöl hér á landi. Liðið spilaði fimm leiki, tvo við Björninn, tvo við SA og einn leik við landsliðið og bar sigur úr býtum í öllum viðureignunum. Í gær mættu Fálkarnir landsliðinu og unnu með 4 mörkum gegn 1 í virkilega skemmtilegum leik. Landsliðið sýndi oft mjög góða takta og áttu nokkur mjög góð marktækifæri og með smá heppni hefðu mörkin getað orðið fleiri. Eina mark liðsins skoraði fyrirliðinn Birna Baldursdóttir.
Í morgun mættu Fálkarnir svo SA að nýju og í þetta skiptið fóru leikar 9 - 1 og eina mark SA skoraði Sólveig Smáradóttir. Skemmtilegri heimsókn er lokið og stelpurnar reynslunni ríkari. Síðan kvennahokkíið byrjaði hér á landi fyrir um 7 - 8 árum hefur aldrei komið hingað erlent kvennalið og því hafa liðin tvö spilað einungis við hvert annað allan þennan tíma, fyrir utan eitt tímabil er Skautafélag Reykjavíkur tefldi fram kvennaliði. Bæði SA og Björninn hafa farið erlendis í keppnisferðir en það er engum blöðum um það að fletta að heimsóknir sem þessar eru mikil lyftistöng og vonandi eiga þær eftir að verða fleiri í framtíðinni. Heimsókn Fálkanna á eftir að verða gerð betri skil hér innan tíðar.