Eistland - Ísland umfjöllun

Í gær léku Íslendingar gegn Eistum í II deild A-riðils á HM sem fram fer í Novi Sad í Serbíu. Leiknum lyktaði með sigri eistlendinga sem gerðu 16 mörk gegn 1 marki okkar manna. Eins og tölurnar gefa til kynna höfðu eistlendingar mikla yfirburði í leiknum en fyrsta markið var þó okkar. Það gerði Steinar Grettisson eftir góða sendingu frá Gunnari Guðmundssyni. Eftir það fór að halla á ógæfuhliðina en einsog og margir vita er lið eista liðið sem kom niður úr fyrstu deild á síðasta ári. Spil eistanna hentar íslenska liðinu mjög illa, þeir eru á mikilli hreyfingu allan tímann og eiginlega stórslys að þeir hafi leyft serbunum að vinna sig í fyrsta leik. Fyrstu lotuna tóku eistar 4 – 1, þá næstu 5 – 0 og þá síðustu 7 – 0.

Að leik loknum var Ingvar Þór Jónsson valinn leikmaður íslenska liðsins en mikið mæddi á honum einsog öðrum varnarmönnum í þessum leik.

Íslenska liðið spilar gegn Serbum síðar í dag eða klukkan 20.30 að staðartíma en það er klukkan 18.30 að íslenskum tíma. Serbarnir eru með öflugt lið en spila hokkí sem hentar okkur töluvert betur heldur en eistneska liðið.

Myndina tók Pétur Maack

HH