09.03.2009
Íslenska landsliðið skipað leikmönnum 18 ára og yngri vann í dag öruggan 11 – 0 sigur á Búlgörum í fyrsta leik sínum í 3 deild á heimsmeistaramóti sem Alþjóða íshokkísambandið stendur fyrir, en mótið fer fram í Erzurum í Tyrklandi. Íslenska liðið sótti látlaust allan leikinn og strax á 6. mínútu opnaði Egill Þormóðsson fyrirliði liðsins markareikninginn og áður en lotan var á enda bætti hann við öðru marki. Í annarri lotu bættu íslendingar við þremur mörkum og í öll skiptin var þar að verki Ólafur Hrafn Björnsson. Íslenska liðið innsiglaði svo öruggan sigur sinn með sex mörkum í síðustu lotunni. Egill Þormóðsson bætti við þremur mörkum en Björn Róbert Sigurðarson gerði tvö og Róbert Freyr Pálsson eitt. Íslendingar hlutu 24 mínútur í brottvísanir í leiknum en Búlgarir 48. Fimm af ellefu mörkum Íslands voru gerð þegar liðið var manni eða tveimur mönnum fleiri á ísnum. Næsti leikur Íslands er gegn Írum á morgun.
Mörk/stoðsendingar Íslands:
Egill Þormóðsson 5/0
Ólafur Hrafnsson 3/1
Björn R. Sigurðarson 2/0
Róbert Freyr Pálsson 1/1
Ingólfur Elíasson 0/3
Snorri Sigurbjörnsson 0/1
Gunnar D. Sigurðsson 0/1
HH