Frá leik liðanna á laugardaginn. Myndir: Bryndís Ingibjörg Björnsdóttir
Á laugardagskvöld léku í meistaraflokki kvenna Björninn og Ynjur og fór leikurinn fram í Egilshöll. Heimaliðið stendur í mikilli uppbyggingu þessa dagana og mætti liðið 21 leikmann á leikskýrslu og spilað var á flest ef ekki öllum leikmönnum. Norðanstúlkur eru hinsvegar komnar lengra í íþróttinni og fóru með sigur af hólmi en þær gerðu sjö mörk gegn einu marki Bjarnarstúlkna.
Strax í fyrstu lotu dundu sóknarlotur Ynja að marki Bjarnarstúlkna en vörn þeirra ásamt Karitas Halldórsdóttir markmanni liðsins náðu að verjast nokkuð vel. Ynjur náðu þó að skora tvö mörk. Fyrra markið gerði Silvía Rán Björgvinsdóttir en hið síðara kom rétt fyrir lotulok og það gerði Hrund Thorlacius.
Önnur lotan fór á svipaðan hátt. Heimaliðið varðist að bestu getu en gestirnir sóttu allt hvað af tók. Einungis eitt mark var skorað í lotunni og það gerði Sólveig Smáradóttir. Staðan því 0 - 3 eftir aðra lotu og Ynjur með leikinn í hendi sér.
Í þriðju lotunni fór svo að halla undan hjá Bjarnarstelpum og Ynjur bættu við fjórum mörkum og tryggðu sér öruggan sigur. Bjarnarstúlkur náðu þó í síðustu lotunni að koma inn marki en markið gerði Kristín Ingadóttir.
Mörk/stoðsendingar Björninn:
Kristín Ingadóttir 1/0
Steinunn Sigurgeirsdóttir 0/1
Ingibjörg G. Hjartardóttir 0/1
Refsingar Björninn: 4 mínútur
Mörk/stoðsendingar Ynjur:
Sólveig Smáradóttir 2/1
Diljá Sif Björgvinsdóttir 2/0
Linda Brá Sveinsdóttir 1/1
Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/1
Hrund Thorlacius 1/0
Refsingar Ynjur: 4 mínútur
HH