19.02.2006
Hlutgengi Sergei Zak
Á heimasíðu Bjarnarins er grein sem skrifuð 17. febrúar 2006, þar sem settar eru fram fullyrðingar sem að ekki standast og rétt er að leiðrétta. Þar segir “Sergei hefur nú fengið íslenskt vegabréf, til staðfestingar á íslenskum ríkisborgararétti sínum. Hugur hans stefndi til þess að leika með landsliði Íslands á HM í vor. Af því getur ekki orðið, vegna þess að ÍHÍ fór ekki að félagsskiptareglum IIHF í haust.”
Þetta eru rakalausar staðhæfingar sem að eiga sér enga stoð. Formaður Bjarnarins hefur, í nafni stjórnar Bjarnarins, farið mikinn síðustu mánuði í herferð gegn núverandi stjórn ÍHÍ og vílar ekki fyrir sér að setja fram rangar fullyrðingar og upplognar sakir í því stríði.
Staðreynd málsins er þessi. Stjórn ÍHÍ kannaði á síðasta keppnistímabili, í samvinnu við leikmanninn Sergei Zak, hvaða reglur og skilyrði giltu hjá IIHF varðandi hlutgengi hans með Íslenska karlalandsliðinu. Í tilvikum sem þessum þar sem leikmaður hefur áður leikið með landsliði annars lands (Ísrael í þessu tilviki) gilda sérstakar reglur. Í skriflegu svari sem að sambandinu barst frá IIHF og Sergei Zak hefur afrit af, kemur skýrt fram að hann getur ekki talist löglegur leikmaður með landsliði Íslands fyrir enn í fyrsta lagi á tímabilinu 2006 ? 2007. Takmarkandi þáttur hér er hvenær hann lék sinn síðast leik fyrir hönd Ísrael, sem að var á tímabilinu 2002 ? 2003. Að öðru leyti uppfyllir Sergei kröfur um hlutgengi með Íslenska landsliðinu.
Það hefur verið vitað í nokkurn tíma að Sergei hefði hug á að leika fyrir sitt nýja heimaland. Þeirri ákvörðun hans fagna allir íshokkíáhugamenn enda ekki nokkur spurning að hann mun styrkja landslið Íslands verulega. Honum er hinsvegar búið að vera ljóst í langan tíma að af því getur ekki orðið fyrir en í fyrsta lagi á nýju keppnistímabili. Því til staðfestingar hefur hann afrit af svari IIHF við áðurnefndri fyrirspurn.
Þessar staðreyndir eru vísar og hafa legið fyrir í nokkurn tíma. Ásökunum og dylgjum stjórnar Bjarnarins er því vísað til föðurhúsanna.
Leikleyfi
Varðandi aðrar ásakanir sem settar eru fram í sömu grein er rétt að segja þetta. ÍHÍ hefur síðustu árin viðhaft verklag sem er samræmi við þær reglugerðir sem um fjalla um hlutgengi erlendra leikmanna með íslenskum félagsliðum. Ein þessara reglugerða fer á svig við reglugerðir IIHF. Þetta hefur verið gert án athugasemda frá aðildarfélögum ÍHÍ. Engar tillögur um breytingar á þessum reglugerðum komu fram á síðasta íshokkíþingi og engar athugasemdir voru gerðar fyrir upphaf yfirstandandi keppnistímabils.
Fyrstu athugasemdir frá formanni Bjarnarins við þennan afgreiðslumát komu fram eftir að 1. umferð íslandsmótsins var lokið. Þannig léku 4 erlendir leikmenn með meistaraflokki Bjarnarins í fyrstu leikjum Íslandsmótsins, og mátti allri stjórn Bjarnarins vera ljóst að þeir eins og aðrir erlendir leikmenn voru með leikheimildir sem ÍHÍ gaf út til bráðabirgða. Stjórn Bjarnarins virðist því fallast á þessa afgreiðslu í verki á meðan formaðurinn notar þetta sem tilefni til að hamast á stjórn ÍHÍ.
Viðar Garðarsson
formaður ÍHÍ