Anna Sonja á heimleið

Hún Anna Sonja sem spilað hefur með Skautafélagi Akureyrar undanfarin ár ákvað að breyta til þetta tímabilið og hélt til Svíþjóðar. Þar hefur hún spilað í 2. deildinni með Malmö Redhawks. Gengi liðsins í leikjum vetrarins hefur verið upp og ofan en liðið hefur bæðið unnið og tapað fyrir öllum liðum í deildinni nema því efsta. Þrátt fyrir það hefur deildin verið jöfn og spennandi og dagsformið oft ráðið úrslitum um hvernig leikir enduðu. Liðið endaði í 3. sæti í deildinni og mætti í síðasta leik Vaxjö á útivelli en Vaxjö liðið var í öðru sæti deildarinnar. Sigur í leiknum var Malmö nauðsynlegur til að tryggja sér 3 sætið. Þrátt fyrir að vera frekar fáliðaðar í þeim leik tókst Malmö liðinu að vinna stórsigur en leikurinn endaði 0 – 5 Malmö í vil. Deildin er nú á enda runnin í Svíþjóð og Anna Sonja á heimleið, reynslunni ríkari. Allar líkur eru á að lið hennar Malmö Redhawks heimsæki okkur hérna á klakann síðar á árinu til að spila en við segjum nánar frá því þegar nær dregur.

HH