Afrekskvennasjóður

Við óskum kvennalandsliðinu okkar innilega til hamingju með viðurkenninguna
en í gær var þeim úthlutaður styrkur úr Afrekskvennasjóði Glitnis ásamt
kvennalandsliðunum í handbolta og fótbolta. Styrkurinn nam kr. 1.000.000.-
á hvert lið og er ljóst að þessi aðstoð kemur til með að gera okkur kleift
að halda góðu starfi áfram með okkar lið.

Íshokkísamband Íslands sótti um styrk til sjóðsins vegna æfinga- og
undirbúningstímabils liðsins og þátttöku liðsins í heimsmeistarakeppni
Alþjóða íshokkísambandsins en eins og fram hefur komið sigraði liðið fjórðu
deild heimsmeistaramótsins í fyrra og færðist því upp um deild næsta ár.
Óvissa er um hvort sú keppni verður haldin en ef af því verður ekki þá er
hafinn undirbúningur á að halda fjögurra þjóða keppni í apríl á næsta ári
hér á Íslandi. Þrjú landslið hafa lýst yfir áhuga á að koma og etja kappi
við stúlkurnar okkar en það eru Belgía, Króatía og Ungverjaland en þessi
lið eru öll í þriðju deild eins og við.

Í framhaldi af umfjöllun um kvennalandsliðið þá eru tímamót framundan hjá
okkur í kvennahokkíinu. Um helgina verða leikir byrjenda á undan
meistaraflokksleikjunum og er jafnvel von á að einhverjar nýjar sem hafa
verið að mæta á æfingar hjá SR komi og blandist í liðin. Þetta er frábært
framtak hjá þjálfurunum hjá Birninum og SA, sem kemur án efa til með að
efla áhugann og getuna hjá nýju hokkístúlkunum. 

Íshokkísamband Íslands vill þakka Glitni og Íþrótta og Ólympíusambandi Íslands fyrir stuðning til eflingar kvennaíshokkís á Íslandi