10.02.2008
Æfingabúðum U18 og karlalandsliðsins var rétt í þessu að ljúka. Strangar æfingar hafa staðið yfir alla helgina og nú hafa þjálfarar valið liðin sín. Sergei valdi hópinn strax eftir síðustu æfinguna og tilkynnti hópinn í búningsklefanum. Við munum birta endanlegan nafnalista hér á síðunni seinna í dag eða í síðasta lagi í fyrramálið.
Sveinn Björnsson og Richard Tahtinen hafa sömuleiðis ráðið ráðum sínum nú uppúr hádeginu og munu skila endanlegum nafnalista síðar í dag.
Hluti af æfingaferlinu var leikur í gærkvöldi á milli beggja liðanna. Fyrirfram var vitað að karlaliðið yrði sterkara enda unnu þeir 11-2. Athygli vekur þó að 1. lína U18 ára liðsins vann það eldra 2 - 0. Þeir fengu ekkert mark á sig og skoruðu tvö, annað markið á móti 1. línu og hitt á móti 2. línu og verður það að teljast nokkuð góður árangur. 1. línu U18 liðsins skipa þeir Egill Þormóðsson, Pétur Maack og Mattías Sigurðsson í framlínu, og í vörninni eru þeir Sigurður Árnason og Orri Blöndal.
Meðfylgjandi ljósmynd er úr landsleik Íslands og Tyrklands. Myndina tók Kristján Maack.