Í dag mætir Íslenska U20 liðið Ungverjum á heimsmeistaramótinu sem fer fram í Miercurea Ciuc í Rúmeníu. Leikurinn hefst klukkan 13.30 að staðartíma eða klukkan 11.30 að okkar tíma. Enginn þarf að efast um að það verður við ramman reip að draga fyrir okkar menn enda Ungverska liðið firnasterkt. Á síðasta móti lék Ungverska liðið í fyrstu deild og fyrir þetta mót lék liðið sautján æfingaleiki á undirbúningstímabilinu. Síðasti leikur okkar í keppninni er svo á laugardaginn en þá leikum við gegn gestgjöfunum Rúmenum sem í gær unnu Spánverja auðveldlega 6 - 1. Þess má þó geta að Spænska liðið hefur orðið fyrir áföllum síðan við lékum við þá, því tveir leikmenn liðsins hafa verið sendir heim vegna agabrota. Því er sem betur fer ekki fyrir að fara hjá Íslenska liðinu og vonandi að svo verði áfram. Við viljum að endingu koma á framfæri smá leiðréttingu en við sögðum í gær að Gunnar Guðmundsson hefði skorað eitt mark en svo var ekki. Þar var á ferðinni Egill Þormóðsson eftir stoðsendingu frá Pétri Maack, þ.e. ungu drengirnir í liðinu. Við biðjumst velvirðingar á þessu um leið og við óskum þeim báðum til hamingju því ekki er betur vitað en þetta séu þeirra fyrstu stig í leik með U20 landsliði. Við látum svo
fylgja link á tölfræðina fyrir Íslenska liðið og
hér er svo annar þar sem má sjá úrslit leikja og stöðuna í riðlinum. Þess má svo að lokum geta að samkvæmt helsta lagaskýranda ÍHÍ þá eru reglur þannig að ef lið eru jöfn að stigum þá ráða úrslit úr innbyrðis leik liðanna stöðu þeirra í töflunni.
Við sendum strákunum bestu kveðjur. ÁFRAM ÍSLAND.