Lyfjamál.

Eins og sagt var frá hér seint á síðasta ári hefur Lyfjaráð og Lyfjaeftirlit ÍSÍ unnið að breytingu í samræmmi við breytingar sem WADA hefur gert á sínum reglum. Í fyrri frétt okkar var fjallað um áherslubreytingar á refsi- og dómaframkvæmd og því ekki ástæða til að fara frekar í það hér. 
Segja má að íþróttamönnum sé skipt upp í þrjá hópa en þeir eru í grófum dráttum: afreksfólk, keppendur á landsstigi og aðrir keppendur. Segja má að íshokkíleikmenn falli aðallega undir tvo síðari hópana.

Íþróttamenn á landsstigi eru:

a. Allir í A-landsliðum karla og kvenna
b. Allir leikmenn í efstu deild karla og kvenna
c. Einstaklingar hæfir til keppni í meistaramóti viðkomandi sambands

Þær reglur sem gilda um leikmenn á þessu stigi eru:

1. Allar undanþágur fyrirfram. Undantekning frá því ef um innöndunar astmalyf er að ræða (þar með talið GCS og Beta2 virk lyf). Fyrir þeim þarf undanþágu eftirá.
2. Nóg að tilkynna um notkun á GCS síðustu 3 mánuði í lyfjaprófi séu þeir notaðir ókerfistengt (þ.e. með sprautun í lið, við lið, sinaslíður, utanbasts, í mænu og undir húð).
3. Ekki krafist staðsetningarupplýsinga. (Á við afreksfólk og þá sem falla á lyfjaprófi).
4. Geta átt von á lyfjaprófum í og utan keppni.
Við viljum sérstaklega benda á undanþáguna um innöndunar astmalyf en það er sá flokkur sem mest er spurt um.

Síðari hópurinn sem hokkímenn tilheyra eru aðrir keppendur. Þeir eru:

a. Lægri deildir.
b. Unglingamót.
c. Öldungamót.

Reglurnar sem gilda um þessa hópa eru ekki jafn stífar og um fyrri hópinn en þær líta svona út:

1. Ekki krafist undanþágna fyrirfram.
2. Ekki krafist staðsetningarupplýsinga.
3. Geta átt von á lyfjaprófum í og utan keppni.

Ýmsar aðrar breytingar koma nú til framkvæmda s.s. að nú verða niðurstöður úr lyfjaprófum einungis birtar á heimasíðu Lyfjaeftirlitsins en hingað til hefur niðurstaðan verið send í pósti. Leikmenn sem eru undir 18 ára aldri geta átt von á því að vera sendir í lyfjapróf en þó ber að upplýsa þá og foreldra þeirra um að þar með gangist þau undir þær reglur sem gilda um lyfjaeftirlit.

HH