22.09.2009
Í kvöld fer fram fyrsti leikur tímabilsins hér sunnan heiða í meistaraflokki karla þegar Björninn og Skautafélag Reykjavíkur mætast í Egilshöllinni og hefst leikurinn klukkan 19.30.
Ef farið er yfir liðin frá síðasta tímabili sést að töluverð skörð hafa verið hoggin í leikmannahóp SR-inga en þeir Egill Þormóðsson, Pétur Maack og Tómas Tjörvi Ómarsson eru allir horfnir á braut til Svíþjóðar. Áðurnefndir leikmenn voru allir fastamenn í SR-liðinu á síðasta ári og gaman verður að sjá hvernig Richard Tahtinen bregst við brotthvarfi þeirra. Frá því á síðasta tímabili hefur einn leikmaður bæst í hópinn en það er Þórhallur Viðarsson sem tók sér stutt frí frá hokkí. Einni er Birkir Árnason mættur aftur til leiks í liði SR-inga. Daniel Kolar er ekki enn kominn með leikheimild en síðar í dag kemur í ljós hvort hún næst í gegn áður en leikurinn hefst.
Bjarnarliðið mætir nokkurn veginn með sama mannskap og í fyrra. Sergei Zak hefur þó lagt skautana á hilluna og sinnir nú eingöngu þjálfun liðsins. Eitthvað vantaði af leikmönnum í Bjarnaliðið sem heimsótti SA-menn um síðustu helgi en einhver von er um að hópurinn þéttist. Brynjar Þórðarson er þó enn staddur erlendis þannig að fullvíst er að hann verður ekki með.
Það er hægt að lofa spennandi og skemmtilegum leik í kvöld og því um að gera að skella sér upp í Egilshöll.
Myndina tók Ómar Þór Edvardsson
HH