Ísland og Ástralía mættust í æfingaleik í kvöld

Í kvöld spilaði karlalandsliðið æfingaleik við Ástralíu sem hingað er komið til lands fyrst keppnisliða.  Það er skemmst frá því að segja að liðin skildu jöfn, 2 – 2 en óhætt er að segja að liðin séu jöfn að styrkleika.     Fyrsta lotan var markalaus en í 2. lotu steig íslenska liðið upp og var miklu hreyfanlegra á sama tíma og áströlsku leikmennirnir virkuðu þreyttir.

Bæði mörk Íslands komu í lotunni og bæði í „power play“, annars vegar í 5 á 4 og hins vegar 5 á 3.  Annað markið skoraði Andri Helgason og hitt Robin Hedström.

Jafnræði var svo með liðunum í 3. lotu en Ástralir komu sterkari til baka eftir heldur slaka 2. lotu og jöfnuðu leikinn og niðurstaðan verður að teljast sanngjörn.  Æfingaleikir sem þessi eru liðinu mikilvægir en þarna geta leikmenn og þjálfarateymi stillt saman strengi og hrist liðið saman.   Þjálfari liðsins, Tim Brithén, var bara nokkuð ánægður með leikinn og fannst sínir menn skauta vel og hreyfa pökkinn en hann hefði viljað sjá fleiri skot á mark og fleiri marktækifæri.  Hann kvaðst hafa reynt að rúlla sem mest á fjórum línum en spilað meira á 1. og 2. línu í lokin í von um að ná forystunni aftur.

Eins og áður sagði þá er jafnræði með liðunum en þau hafa mæst reglulega síðan Ísland tók fyrst þátt í Heimsmeistaramóti með karlaliðði árið 1999.  Fyrsti íslenski sigurinn kom þó ekki fyrr enn 2013 í Zagreb í Króatíu þar sem úrslit réðust ekki fyrr enn í vítakeppni.  Í fyrra mættust liðin svo aftur og þá vann Ísland í framlengingu – þannig að eftir jafnteflið í dag þá hafa liðin verið jöfn eftir venjulegan leiktíma þrjá leiki í röð með sömu markatölu – 2-2.