Fara í efni
Hokkíhelgi.
06.11.2009
Hokkíhelgin að þessu sinni er samblanda af leikjum og æfingabúðum U-20 ára landsliðsins og allt þetta fer fram á Akureyri. Fjörið byrjar í kvöld þegar Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur leiða saman hesta sína í 2. flokki karla. SR-ingar hafa hingað til ekki riðið feitum hesti frá leikjum sínum í flokknum en hafa nú nýtt sér að mega færa leikmenn milli flokka. Liðið missti þrjá burðarása úr liðinu sínu frá síðasta ári og því gott fyrir flokkinn að geta styrkt sig.
Á morgun klukkan 17.30 leika síðan SA-eldri og Björninn í meistaraflokki kvenna. Liðin léku um síðustu helgi og gekk mikið á en leikurinn endaði með sigri Bjarnarins sem gerði 4 mörk gegn 3 mörkum SA-eldri. Leikurinn um helgina gæti því orðið hin besta skemmtun.
Um helgina eru einnig æfingabúðir U-20 landsliðsins undir öruggri stjórn Jóns B. Gíslasonar sem nú er starfandi þjálfari SA ásamt þvi að leika með liðinu þegar hann er heill heilsu. Jón mun njóta aðstoðar eldri leikmanna í æfingabúðunum. Sjá má æfingahópinn hér.
Myndina tók Sigurgeir Haraldsson
HH