Á döfinni.

Nú er farið að styttast í að íshokkímenn fari að reima á sig skautana og koma sér út á ísinn. Undirbúningur fyrir næsta íslandsmót er í fullum gangi og vonandi verður bráðlega hægt að fara birta mótaskrá en mótanefnd hefur lokið störfum sínum í bili og liggur mótaskráin nú inni í höllunum til yfirlestrar. Þegar ég kíkti niður í Laugardalinn í vikunni sá ég að sumir voru orðnir nokkuð heitir fyrir að byrja aftur en þar voru um fimmtán strákar að leika sér.

Áður en mótið hefst er gert ráð fyrir hraðmóti með þáttöku allra liða í meistaraflokki og er stefnt á helgina 7 - 9 september. Hraðmótinu er ætlað að koma mönnum aðeins í gírinn en einnig standa vonir til að hægt verði að nýta það fyrir dómara. Þ.e. að fá erlendan dómara, líklegast frá Danmörku, til að halda námskeið fyrir dómara og síðan yrði hann eftirlitsdómari á hraðmótinu.

Helstu breytingar á mótaskránni varðandi meistaraflokk eru þær að Narfinn kemur inn aftur og því hægt að leika á tveimur stöðum samtímis. Stefnt er að því að leika einhverja leiki milli jóla og nýárs en eftir er að sjá hvort hallirnar verða opnar á þeim tíma. Leikjum hefur eitthvað verið fjölgað en það kemur betur í ljós þegar skráin verður birt.

Engar breytingar hafa verið gerðar á keppnisfyrirkomulagi í meistaraflokki kvenna og í 2. og 3. flokki karla frá síðasta keppnistímabili. Haldið er þeim möguleika opnum að stakt helgarmót verði haldið í 3. flokknum.

Í 4. flokki hefur verið bætt við móti. Ekki hefur verið ákveðið hvort mótið verður hluti af íslandsmóti eða stakt bikarmót en áhugi hefur verið mikill á að auka spilamennsku þeirra sem eru í þessum flokki.

Í 5 - 7 flokki hefur verið til umræðu að bæta við móti rétt einsog í 4. flokknum en engin ákvörðun hefur verið tekin um það.

Enn er unnið að því að koma upp úrslitakerfi á netinu en við skulum vona að í því tilvikinu sé sígandi lukka best.

Með lækkandi sól fer fréttunum hérna á heimasíðu ÍHÍ að fjölga og því ástæða fyrir alla áhugsama um íshokkí að kíkja hérna við.

Einsog þið sjáið þá verða töluverðar breytingar hjá okkur milli ára. Við erum hinsvegar alltaf til í að hlusta á nýjar hugmyndir þó að þær að sjálfsögðu komist ekki allar í framkvæmd. Endilega sendið póst á ihi@ihi.is ef ykkur dettur eitthvað sniðugt í hug.

HH