Alþjóðaþing og fleira.


Eitt og annað er framundan í alþjóða íshokkí og ég ákvað að stikla á stóru bæði hvers ég varð vísari þegar ég sat þing Alþjóða íshokkísambandsins í maí og hvað ég hef heyrt síðan. Stóru fréttirnar eru að sjálfsögðu þær að á næsta ári heldur íshokkí sem íþrótt uppá 100 ára afmæli sitt. Alþjóða íshokkísambandið hyggst með ýmsum hætti minnast þessara tímamóta og munum við greina frá því hérna á síðunni þegar nær dregur.

 
Það mál sem vakti kanski hvaða mesta spennu á þinginu var kosning um hvar HM karla árið 2012 skyldi haldið. Í byrjun voru það fjögur lönd sem höfðu lagt umsókn en það voru Tékkar, Ungverjar, Svíar og Fínnar. Tveir þeir fyrrnefndu drógu umsókn sína til baka fyrir kosningu og því var kosið milli Svía og Finna. Bæði löndin hafa sjálfsagt eytt tugum milljóna í kosningabaráttuna enda stórmál að fá að halda hana. Bæði er það góð auglýsing fyrir íþróttina og hagnaður af henni oftast góður. Sem dæmi  um kosningabaráttu má nefna að sá sem þetta skrifar var boðaður á fund í Sænska sendiráðið í Reykjavík til að taka á móti bréfi frá íþróttamálaráðherra Svía þar sem falast var eftir stuðningi okkar.  Einnig bárust kynningabæklingar og eitthvað heyrðist af boðsferðum á vegum Svíanna. Á endanum fór það svo að Finnar höfðu vinninginn, fengu 64 atkvæði á móti 35 atkvæðum Svia. Það þarf enginn að efast um annað en að Finnar muni halda mótið 2012 með miklum glæsibrag.
 
Kosningar um önnur HM-mót fóru að sjálfsögðu fram og eins og komið hefur fram hérna á síðunni fer U-18 liðið okkar til Mexíkó, U-20 liðið til Ítalíu og kvenna og karlaliðin fara bæði til Rúmeníu. ÍHÍ sótti um að fá mótið hingað heim, en varð því miður að láta í minni pokann í þetta sinnið.
 
Á morgun mun ég segja frá þeim nýju keppnum sem IIHF stefnir að á keppnistímabilinu 2008-9 en segja má að þar sé margt spennandi í gangi.

HH