4. dagur í ferð karlalandsliðs.

Það var ræs um miðja nótt þegar liðið hélt frá Mörrum áleiðis til Eistlands. Menn voru samt óvenju hressir og fljótir að koma sér framúr enda sjálfsagt hugsað með sér að það mætti sofna aftur í rútunni. Hótelhaldarar höfðu nestað liðið upp og með nesti og nýja skó eða öllu heldur samlokum, jógúrt og djús. Því voru gerð góð skil á leiðinni upp í skautahöll en búnaðurinn hafði verið skilinn eftir þar til að hægt væri að þurrka hann. Ekki veitir af, því yfirvigtarvandamál á flugvöllum er fastur fylgifiskur ferðalaga með landslið í íshokkí.

Aksturinn til Kaupmannahafnar tók um tvær klukkustundir og síðan hófst innritun á Kastrup. Starfsmönnum þar þótti farangur einstrakra liðsmanna æði þungur og var aðeins tekist á um málefnið. Endirinn var sá að við fengum fáeinar kvittanir til að fara með á yfirvigtarskrifstofuna. Það hefur samt oft sést svartara.

Flugið var stutt og snarpt og rútuferð kom strax í kjölfarið. Þetta litla sem við sáum af Tallinn var ekki til að við féllum fyrir henni en sjálfsagt á borgin sínar fallegu hliðar. Á leiðinni til Narvar var stoppað einusinni til að metta tóma maga en þegar til Narva var komið var farið beint í höllina. Aðstaðan er ágæt þar þótt klefinn okkar sé í minna lagi.

Hótel Inger verður gististaður okkar næstu vikuna eða svo og eftir að hafa gengið frá héldum við þangað og komum okkur fyrir. Aftur fengu menn að snæða og síðan var frjáls tími nema hvað fararstjóri hélt á mótsfund og skráði liðið til keppni ásamt öllu sem því fylgir. Fundurinn gekk ágætlega og engar sérstakar athugasemdir voru gerðar við skráninguna hjá okkur.

Liðið var komið í ró um miðnætti vitandi það að engin yrði morgunæfingin nema hvað áætlað er að Sigurður Sigurðsson fari einn upp í skautahöll á morgun enda kom hann hingað til Narva rétt fyrir miðnætti. En meira af því síðar.

HH