3. leikur í úrslitakeppni kvenna.

Í kvöld fer fram þriðji og síðasti leikur úrslitakeppninni í meistaraflokki kvenna. Liðin sem leika eru Björninn og SA og fer leikurinn fram í Egilshöll og hefst klukkan 19.30. Liðin hafa leikið tvo leiki fram að þessu og endaði fyrri leikurinn með sigri Bjarnarkvenna en þær unnu 4 – 2 eftir framlengingu og vítakeppni. Síðari leiknum lauk hinsvegar með sigri SA-kvenna en þær unnu Bjarnarstelpur 5 – 1 fyrir norðan á síðasta þriðjudag.

Mikið álag hefur verið á stelpunum síðustu ellefu daga því margir leikmenn þessara liða tóku þátt í NIAC-mótinu sem fram fór á Akureyri í síðustu viku. Það er því ekki einungis dagsformið sem ræður því hvort liðið fer með sigur af hólmi í kvöld heldur líka líkamlega formið. Ekki er annað vitað en að flestir leikmenn séu heilir heilsu nema hvað Rósa Guðjónsdóttir er fjarverandi hjá SA-stúlkum.

Það verður því leikið til þrautar í Egilshöll í kvöld og full ástæða til að mæta og hvetja sitt lið.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH